This bookstore ships all book languages worldwide from Germany. See here if there is a bookstore closer to your location.

Í LJÓSI SANNLEIKANS, 2. BINDI

In stock

€12.00
Shipping Prices

Gralsboðskapur Abd-ru-shin færir okkur heim sanninn um tilhögun og löggengi sköpunarverksins. Á skýran, skiljanlegan hátt svarar ritið helstu spurningum lífs okkar:

Hvaðan komum við? Hver erum við?

Hvert höldum við? –

Fyrirlestrarnir í þessari bók vekja okkur til meðvitundar um raunveruleg verðmæti lífsins og vísa veginn til frelsunar og endurlausnar.

ÁBYRGÐ

Spurning þessi er ávallt meðal þeirra fyrstu, vegna þess að langflestir kjósa allt of gjarnan að varpa sérhverri ábyrgð og oki hennar af sér og yfir á eitthvað annað en sjálfan sig. Að í slíku felist í eðli sínu það að lítillækka sjálfan sig skiptir þá engu máli. Í þeim efnum eru þeir sannarlega auðmjúkir og lítillátir, en þó til þess eins að geta lifað lífinu þeim mun skefjalausar.

Víst væri gaman að mega láta allar óskir rætast og ólmast í makindum óátalið og láta undan öllum fýsnum gagnvart öðru fólki. Í neyð er hægt að sniðganga jarðnesk lögmál og leiða hjá sér ágreining. Þeir sem lagnir eru geta meira að segja í skjóli þessa makað krókinn býsna vel og aðhafst margt sem ekki stæðist nokkra siðferðilega skoðun. Við þá iðju njóta þeir jafnvel oft þess orðspors að vera óvenju duglegir.

Með vissri kænsku mætti eiginlega lifa býsna náðugu lífi að eigin mati, ef ... ekki blundaði einhvers staðar eitthvað sem vekti illan ugg, óþægileg tilfinning, tímabundin vaxandi ókyrrð vegna þess að margt gæti víst verið á annan veg en eigin óskir mæla fyrir um.

Og þannig er málum farið! Veruleikinn er alvarlegur og miskunnarlaus. Óskir manna fá engu þar um breytt. Lögmálið er óhagganlegt: »Maðurinn uppsker margfalt það sem hann sáir!«

Í orðum þessum fáum felst og þau segja mun fleira en svo margur hyggur. Hárbeitt og hnitmiðuð spretta þau upp úr því sem í raun á sér stað í þeirri víxlverkun sem í sköpunarverkinu býr. Hentugar verður slíkt ekki orðað. Á sama hátt og uppskeran margfaldar sáðkornið, þannig fyrirhittir manninn í auknum mæli allt það sem hann vekur og sendir frá sér tilfinningalega, allt eftir eigin löngun.

Andlega ber maðurinn þar af leiðandi ábyrgð á öllu því sem hann aðhefst. Sú ábyrgð hefst þegar með ákvörðuninni sjálfri, ekki að athöfninni lokinni, sem er einungis afleiðing af ákvörðuninni. Og ákvörðunin er birtingarmynd einlægrar löngunar!

Ekki eru til skil milli hérheima og svonefndra handanheima heldur er allt einungis ein stór tilvist. Allt sköpunarverkið, í allri sinni stærð, manninum sýnilegt og ósýnilegt, er starfandi gangverk sem aldrei bilar, aldrei bregst. Samhæfð lögmál bera uppi heildina og líkt og liggja um allt sem taugaþræðir, mynda þar samhengi og virkja stöðugt hvert annað á víxl!

Ef skólar og kirkjur fjalla í því sambandi um himin og hel, Guð og djöful, þá er það rétt. Rangt er hins vegar að gera grein fyrir góðum og illum öflum. Slíkt hlýtur að steypa sérhverjum alvarlega leitandi manni tafarlaust í villur og efasemdir, því þar sem tvö öfl eru, þar hljóta einnig að vera tveir drottnarar, í þessu tilviki því tveir guðir, annar góður og hinn illur.

Og því er ekki þannig farið!

Til er aðeins einn skapari, einn Guð, og því einungis einn máttur sem flæðir gegnum allt sem er, lífgar það og hvetur!

Þessi skapandi máttur Guðs flæðir í sífellu gegnum allt sköpunarverkið, býr í því, er óaðskiljanlegur frá því. Hann er alls staðar að finna: í loftinu, í sérhverjum vatnsdropa, í vaxandi bergi, jurtinni sem dafnar, dýrinu og vitaskuld einnig í manninum. Ekkert er til, þar sem hann er ekki að finna.

Og á sama hátt og hann streymir um allt, streymir hann einnig án afláts um manninn. Sem er á hinn bóginn sem linsa væri. Sem linsa sem drekkur í sig sólargeislana sem um hana fara, safnar þeim saman og miðlar þeim áfram þannig að yljandi geislarnir beinast að einum punkti, svíða þar og tendra eld; á þann hátt drekkur maðurinn, fyrir tilstilli skynjunar og sérstakrar sköpunar sinnar, í sig sköpunarmáttinn sem um hann streymir og miðlar honum áfram á samþjöppuðu formi í gegnum hugsanir sínar.

Allt eftir eðli þessarar skynjunar og þeirra hugsana sem henni tengjast beinir hann þannig sjálfstæðum, starfandi mætti Guðs í góðar eða illar afleiðingar!

Og í þessu felst ábyrgðin sem maðurinn þarf að bera! Í því felst einnig frjáls vilji hans!

Þið, sem svo oft streitist við að finna réttu leiðina, hvers vegna gerið þið ykkur svo erfitt fyrir? Sjáið á einfaldan hátt fyrir hugskotssjónum hvernig hreinn máttur skaparans flæðir um ykkur og þið veitið honum með hugsunum ykkar í góðan eða illan farveg. Þar með náið þið öllu fram án erfiðismuna eða heilabrota!

Minnist þess að með einfaldri skynjun ykkar og hugsun er það í ykkar valdi hvort þessi ægimáttur leiði til góðs eða ills. Þvílíkur skapandi eða eyðandi máttur sem ykkur er þannig gefinn!

Þið þurfið ekki að streita í sveita ykkar andlits, þurfið ekki að kasta ykkur í svokallaðar dulrænar æfingar til að ná merkingarlausu æðra stigi andlegrar uppsveiflu með alls kyns mögulegum og ómögulegum andlegum og líkamlegum afkáraskap!

Látið af slíkum tímafrekum leikaraskap sem hefur svo oft leitt til sárra þjáninga sem jafnast ekki á við neitt annað en sjálfspyntingar og meinlæti í klaustrum áður fyrr. Slíkt er aðeins önnur birtingarmynd þessa og færir ykkur engu meiri ávinning.

Svokallaðir dulrænir meistarar og nemendur eru farísear nútímans! Í hreinasta skilningi þess orðs. Þeir eru sönn spegilmynd faríseanna frá tíma Jesú frá Nasaret.

Minnist með óspilltri gleði þess að þið eruð átakalaust þess megnug að stjórna einstökum og öflugum sköpunarmættinum með einfaldri og velviljaðri skynjun ykkar og hugsun. Áhrif máttarins ráðast nákvæmlega af eðli skynjunar ykkar og hugsana. Hann er einn að störfum, ykkar er eingöngu að stýra því í hvaða átt hann beinist.

Slíkt gerist í öllum einfaldleik og lítillæti! Krefst ekki lærdóms, ekki einu sinni lesturs og skriftar. Það er hverju ykkar gefið í jöfnum mæli! Þar er engum mun til að dreifa.

Líkt og barni sem leikur sér að rofa sem kveikir eða slekkur á rafstraumi sem hefur gríðarleg áhrif, þannig er ykkur gefið að stýra guðlegum mætti með einföldum hugsunum.

Þið megið gleðjast yfir því, vera stolt af því, þá þið stýrið honum til góðra verka! En titrið af angist ef þið sólundið því eða nýtið til illvirkja! Því þið hlaupist ekki undan þeim lögmálum víxlverkunar sem í sköpunarverkinu búa. Og þó þið byggjuð yfir vængjum morgunroðans, myndi hönd Drottins, – en þið misbeittuð mætti hans –, hitta ykkur fyrir, hvar svo sem þið kysuð að felast, vegna þessarar sjálfvirku víxlverkunar.

Með sama hreina, guðlega mætti verður hinu illa jafnt sem því góða til leiðar komið!

Og notkun þessa samræmda máttar Guðs, sem öllum er í sjálfsvald sett að beita, felur í sér ábyrgð sem enginn fær undan vikist. Því hrópa ég til sérhvers leitandi manns:

»Hald hreinni uppsprettu hugsana þinna, þá verður þú friðflytjandi og hamingjusamur!«

Fagnið, þið fákunnandi og veikir, því ykkur er gefinn sami máttur og hinum sterku! Gerið ykkur því ekki of erfitt fyrir! Gleymið því ekki að hinn hreini sjálfskapandi máttur Guðs streymir einnig um ykkur og að þið, sem menn, eruð þess megnug að beina mættinum í ákveðna braut, allt eftir eðli innri tilfinninga ykkar, það er að segja löngunar, til góðs og til ills, skelfilega eða uppbyggilega, til gleði eða harms!

Vegna þess að til er einungis einn guðlegur máttur, útskýrir það um leið leyndardóminn um það hvers vegna myrkrið hlýtur að víkja fyrir ljósinu, bölið að víkja fyrir því góða í sérhverri einlægri lokaglímu. Beinið þið mætti Guðs til góðs viðhelst hann óspilltur í upphaflegum hreinleika og úr verður því enn öflugri máttur, en myrkvun til hins óhreina hefur veiklun í för með sér. Með því móti nær hreinleiki máttarins ævinlega sigri í lokaglímu, verður ríkjandi.

Hvað gott er og hvað illt, slíkt finnur hver einasti fram í fingurgóma, umyrðalaust. Vangaveltur þar um myndu einungis valda ruglingi. Óljósar vangaveltur eru orkusóun, eins og fen, seigt forað er lamar allt sem nærri kemur, umvefur það og kæfir. Fersk glaðværð slítur hins vegar fjötra vangaveltna. Þið þurfið ekki að vera sorgmædd og niðurdregin!

Þið getið hvenær sem er hafið ferðina uppávið og bætt fyrir það liðna, hvað svo sem það var! Gerið ekki annað en að hugsa um ferli hreina máttar Guðs sem streymir um ykkur í sífellu; þá veigrið þið ykkur við því að veita hreinum mættinum í braut illra hugsana, vegna þess að þið eigið þess allt eins kost, og fyrirhafnarlaust með öllu, að ná því sem hæst er og æðst er. Ykkar er eingöngu að stýra, mátturinn starfar síðan einn í þá átt sem þið völduð honum.

Þannig er hamingjan eða óhamingjan í ykkar eigin höndum. Lyftið því stolt upp höfðinu og horfið frjáls og djörf fram á veg. Bölið kemst ekki nærri ef þið kallið það ekki yfir ykkur! Það sem þið viljið, það gengur eftir!

* * *

More Information
ISBN 978-3-87860-425-9
Author Abd-ru-shin
Format Kiljuútgáfa
Number of pages 408
Language Íslenska